Skírnir

 Skírnir – tímarit Hins íslenska bókmenntafélags

Félagsmenn í Hinu íslenska bókmenntafélagi eru jafnframt áskrifendur að Skírni – tímariti Hins íslenska bókmenntafélags – sem kemur út tvisvar á ári, vor og haust. Skírnir hefur nú komið út í yfir 190 ár og er elsta menningartímarit á Norðurlöndum. Hann er sömuleiðis eitt þekktasta og virtasta tímarit Íslendinga og til fárra rita er oftar vitnað í fræðilegri umræðu.

Í Skírni birtast ritgerðir og greinar um bókmenntir, tungumál, sagnfræði, heimspeki, þjóðfélagsmál og stjórnmálafræði, vísindi, listir, þjóðlegan fróðleik og ýmislegt fleira, auk þýðinga, skáldskapar og viðhorfsgreina. Viðfangsefnin eru einatt skoðuð í sögulegu og heimspekilegu ljósi og leitast er við að brjóta til mergjar jöfnum höndum málefni samtíðar og liðins tíma með gagnrýnu hugarfari.

Ritstjóri Skírnis er Sigrún Margrét Guðmundsdóttir og er netfang hennar skirnir@hib.is

Árgjald Hins íslenska bókmenntafélags greiðist við útkomu hvors heftis af Skírni, 5.490,- krónur, eða samtals um 10.980,- krónur á ári. Jafnframt fá félagsmenn 25% afslátt af verði rita félagsins.

Nýir áskrifendur eru velkomnir. Vinsamlegast hafið samband í síma 5889060 eða sendið póst á netfangið hib@hib.is

Alla árganga Skírnis, fyrir utan síðustu sjö ár, er að finna á vefnum Timarit.is.

Til höfunda

Ritstjóri tekur við aðsendu efni og greinum á netfangið skirnir@hib.is. Greinar skulu ekki vera lengri en 8000-10.000 orð en einnig er tekið við styttri ritgerðum. Boðið er upp á ritrýni fyrir þá höfunda sem það vilja.

Reglur um skráningu heimilda og tilvísana í Skírni er að finna hér og höfundar eru beðnir að ganga frá greinum sínum í samræmi við þær.

Brot úr sögu Skírnis

Á fundi Kaupmannahafnardeildarinnar 9. september 1816 var ákveðið í tengslum við 4. grein laga félagsins að gefa út fréttablað um helstu nýjungar varðandi landstjórn, merkisatburði, búskap, verslun og bækur sem gefnar væru út, bæði innanlands og utan. Í lögum félagsins var þess einnig getið að bannað væri að lofa eða lasta íslenskar bækur þó leyfilegt væri að segja meiningu sína á erlendum ritum.

Árið 1827 voru gerðar breytingar á broti og efnistökum og tímaritinu gefið nafnið Skírnir. Það hefur verið gefið út samfellt síðan undir því heiti, í tæpar tvær aldir, að árinu 1904 undanskildu þegar útgáfan féll niður. Heitið Skírnir er úr goðafræðinni en hann var skósveinn Freys, sonar Njarðar. Á titilblaði ritsins fyrstu 60 árin var eftirfarandi hvatning:

Rístu nú, Skírnir!
og Skekkils blakki
hleyptu til Fróns með fréttir
af mönnum og mentum
segðu mætum höldum
og bið þá að virða vel.

Í samkomubók frá fundi Kaupmannahafnardeildarinnar 27. nóvember 1835 má greina að menn hafi ekki alltaf fortölulaust verið tilbúnir til þess að skrifa í Skírni. Þar segir:

„Síðan spurði forseti hvur af félagsmönnum vildi taka að sér að rita Skírnir, en enginn vildi verða til, þá voru valdir til þess með atkvæðafjölda, Konráð, Steffán Eyríksson, Skapti Stefánsson og Jónas Hallgrímsson og tóku Konráð og Jónas „það“ að sér.“

Helstu nýjungarnar í Skírni voru, að auk frétta voru birtar skrár yfir helstu bækur sem gefnar höfðu verið út á árinu, dómar voru um sumar þeirra og efni þeirra útlistað. Einnig birtust þar grafskriftir og erfiljóð og annar kveðskapur fyrstu árin en síðan var hætt við þá birtingu. Á árunum 1873–1891 var gefið út ritið Frjettir frá Íslandi en það varð síðan hluti af Skírni árið 1892 og allt til ársins 1905 þegar þær voru lagðar niður.

Til marks um lýðræðislega framkvæmd félagsins í athöfnum sínum má geta þess að 3. mars 1898 er greint frá því að komið hafi til umræðu „hvort hætta skuli framvegis að gefa út útlendu frjettirnar í Skírni“ (Fundargerðabók Reykjavíkurdeildarinnar, 3.3. 1898). Öllum félagsmönnum hafði verið sendur kjörseðill og skiluðu sér 163 atkvæði eða rúmlega 35% þeirra sem höfðu atkvæðisrétt.

Fjórir gerðu atkvæði sín skilyrt og voru þau því talin ógild og ekki talin með. Já sögðu 79 en 80 nei. Þarna var því minnsti mögulegi munur og „Samkvæmt atkvæðagreiðslunni gat stjórnin eigi mælt með afnámi útlensku fréttanna og hafði enginn á fundinum við það að athuga“ (Fundargjörðarbók Reykjavíkurdeildar 1816–1879). Af þessu má ráða að sterkur lýðræðisblær hafi leikið um félagið og hvert atkvæði hafi skipt máli.

Skirnir_felagatal